Ferill 243. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 1140  —  243. mál.
Leiðréttur texti.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Aðalsteini Hauki Sverrissyni um ábata af nýsköpunarstarfsemi.


     1.      Hyggst ráðherra láta reikna út nettóábata fyrir ríkið af nýsköpunarstarfsemi annars vegar út frá skattgreiðslum nýsköpunarfyrirtækja og hins vegar út frá auknum útflutningsverðmætum vegna þeirra í ljósi þess að hvatar til nýsköpunarstarfsemi hafa orðið til þess að iðnaðurinn hefur vaxið og skilað auknum tekjum í ríkissjóð?
    Já, ráðherra fylgist vel með áhrifum hvata til nýsköpunarstarfsemi á hagtölur og tekjur ríkissjóðs. Undanfarin ár hafa hvatar til nýsköpunarstarfsemi aukist, sérstaklega í formi skattfrádráttar vegna rannsóknar- og þróunarverkefna.
    Í nýlegri úttekt sem OECD vann að beiðni fjármála- og efnahagsráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra er lagt mat á áhrif skattafsláttar til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunar á Íslandi í samræmi við lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki nr. 152/2009. OECD kemst að þeirri niðurstöðu að skattastuðningur vegna rannsókna og þróunar hafi hvetjandi og jákvæð áhrif á fyrirtæki til frekari fjárfestinga á því sviði. Er þá sérstaklega vísað til lítilla og örfyrirtækja. Hvatt er til þess að lítil og meðalstór fyrirtæki fái áfram hlutfallslega meiri stuðning en stærri fyrirtæki líkt og gert var með breytingu á lögunum árið 2020. Síðan þá hafa lítil og meðalstór fyrirtæki geta fengið 35% af kostnaði við rannsóknir og þróun í skattafslátt en stór fyrirtæki 25%. Hámark er á kostnað fyrirtækja sem skattafslátturinn nær til og er hámarkið 1,1 milljarður kr. fyrir rekstrarárið 2023.
    Í skýrslunni kemur fram að skattastuðningur vegna rannsókna og þróunar hafi hvetjandi og jákvæð áhrif á fyrirtæki til frekari fjárfestinga á því sviði. Er þá sérstaklega vísað til lítilla og örfyrirtækja. 1 Stuðningur við rannsóknir og þróun hefur aukist hvað mest hér á landi í samanburði við önnur OECD lönd. Stuðningurinn fór úr því að vera 0,07% af vergri landsframleiðslu árið 2006 í rúmlega 0,42% árið 2020. Heildarfjárfesting í rannsóknum og þróun (R&Þ) hefur aukist undanfarin ár samhliða hærri skattahvötum og nam 2,8% af vergri landsframleiðslu (VLF) á árinu 2021 en meiri hluti þess kemur frá fyrirtækjum. Hlutfallið var 2,0% árið 2018. Framlag ríkisins vegna skattahvata nam um þremur milljörðum króna árið 2018 en á sama tíma vörðu fyrirtæki 37 milljörðum kr. í fjárfestingu í rannsóknum og þróun. Árið 2021 nam framlag ríkisins 10 milljörðum kr. og fjárfesting fyrirtækja í R&Þ rúmlega 65 milljörðum kr. Í fjárlögum 2024 er áætlað að skattfrádráttur rannsókna og þróunarverkefna verði 15 milljarðar kr. Það eru því miklar væntingar um að fjárfestingar fyrirtækja í rannsóknum og þróun haldi áfram að aukast. Útflutningstekjur hugverkaiðnaðar hafa tvöfaldast á fimm árum en árið 2022 voru þær 240 milljarðar kr. 2 Fyrir árið 2023 stefnir í að þær verði 280 milljarðar kr. og með því hefur greinin þrefaldað útflutningsverðmæti sitt á síðasta áratug. Miðað er við að útflutningstekjur hugverkaiðnaðar verði 17% af heildarútflutningstekjum árið 2024. 3 Fjöldi launþega í hugverkaiðnaði hefur líka aukist talsvert og er í kringum 15.000. 4
    Hvað varðar styrkveitingar í gegnum samkeppnissjóði er mikilvægt að benda á að áhrif af styrkjum til nýsköpunar geta verið lengi að koma fram frá því að styrkur er veittur, og talsvert lengur en áhrif skattfrádráttar á rannsóknir og þróun í starfandi fyrirtækjum. Við mat á áhrifum styrkveitinga til nýsköpunar þarf því að horfa til nokkurra ára aftur í tímann. Þess vegna er í áhrifamati Tækniþróunarsjóðs frá desember 2022 horft til áranna 2014–2018. 5
    Í áhrifamatinu kom eftirfarandi m.a. fram:
     *      Styrkur leiddi til nýrrar frumgerðar vöru eða þjónustu hjá 91% styrkþega.
     *      Í 45% tilvika leiddi styrkveiting til stofnunar nýrra fyrirtækja styrkþega.
     *      Velta jókst hjá 77% styrkþega.
     *      Hagnaður jókst hjá 56% styrkþega.
     *      Aðgengi að nýjum mörkuðum jókst hjá 64% styrkþega.
     *      Hjá 55% styrkþega jókst markaðshlutdeild erlendis.
     *      Styrkveiting nýttist 23% styrkþega til að afla fjármagns frá erlendum fjárfestum, 23% styrkþega fengu fjármagn frá erlendum rannsókna- og þróunarsjóðum og 11% styrkþega fengu jafnframt styrki úr Rannsóknasjóði.
     *      Hjá 82% styrkþega urðu til ný tímabundin störf og hjá 73% styrkþega urðu til ný framtíðarstörf.
     *      Hjá 56% styrkþega jókst hlutdeild ungs fólks í nýsköpun og hjá 55% styrkþega jókst hlutdeild kvenna í nýsköpun og tækniþróun.
     *      Hjá 25% styrkþega jókst hlutdeild erlendra innflytjenda í nýsköpun og tækniþróun.
     *      Án styrkja hefðu 95% nýsköpunarverkefna ekki orðið að veruleika að mati umsækjenda.

     2.      Hver er heildarfjárhæð stuðnings sem ríkið hefur veitt nýsköpunarfyrirtækjum frá árinu 2017 til dagsins í dag?
    Að teknu tilliti til stuðningssjóða á málefnasviði háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti skiptist stuðningur við nýsköpun á umræddu tímabili þannig (fjárhæðir í milljónum króna).

2017 2018 2019 2020 2021 2022 2023
Tækniþróunarsjóður 2.378 2.331 2.330 2.988 3.526 3.580 3.512
Skattfrádráttur rannsókna og þróunarverkefna 2.784 3.041 3.577 5.186 10.431 11.700 13.084
Markáætlun (50%) 96 104 96 91 91 188 172

    Ætla má að stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki á sama tímabili úr Horizon-áætlun ESB nemi um milljarði króna á ári. Þá er ótalinn stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki sem fellur utan málefnasviðs ráðuneytisins.

1     www.oecd.org/economy/surveys/OECD-Iceland-tax-credit-evaluation-2023.pdf
2    Fjármálaáætlun 2024–2028, bls. 22.
3    Fjármálaáætlun 2024–2028, bls. 201.
4     www.si.is/media/_eplica-uppsetning/Greining-SI_Skattahvatar-R-Th_25-10-2023.pdf
5     www.rannis.is/media/taeknithrounarsjodur/Ahrifamat-TThS-heild-vefur.pdf